Ölfusá ruddi sig með miklum jakaburði um klukkan 23 í gærkvöldi niður fyrir Selfoss. Nú er fyrirstaða vegna íss í ánni fyrir neðan Flugunes og flæðir áin yfir bakka sína í Sandvíkurhreppi.
Áin rennur utan venjulegs farvegs fyrir austan Flugunes og þar framhjá Kotferju og niður fyrir Kaldaðarnes, þar til hún finnur farveg sinn aftur um fimm kílómetrum neðar.

Kotferja er umflotin og ófært þangað og sömuleiðis er Kaldaðarnesvegur er ófær og skemmdur og íbúar í Kaldaðarnesi innilokaðir. Fjórir áratugir eru síðan myndarleg klakastífla orsakaði svipað flóð í ánni.
Þegar áin ruddi sig í gærkvöldi þá flæddi hún yfir bakka sína ofan við Geitanes við Selfoss í gærkvöldi og yfir byggingarsvæðið við nýja skólphreinsistöð Selfyssinga. Þar fóru tæki á kaf og byggingarefni og verkfæri skoluðust á burt og er „óvinnufært“ við bygginguna vegna vatns.


Eftir leysingarnar síðustu daga er mikið rennsli á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár. Einungis hefur verið fært fyrir stóra bíla að Auðsholti í Hrunamannahreppi og Útverk á Skeiðum eru umflotin vatni eins og sjá má hér að neðan.






Hér fyrir neðan er myndband frá Steinari Guðjónssyni, flugkappa á Selfossi, sem sýnir flóðið þar sem það rennur austan við bæinn í Kaldaðarnesi. Húsin í Kaldaðarnesi eru nokkurn veginn fyrir miðri mynd.