Ölfusá flæðir yfir bakka sína í Sandvíkurhreppi

Kaldaðarnesvegur er ófær en þar eru þykkar hrannir og rúllubaggar hafa flotið niður ána og strandað á veginum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ölfusá ruddi sig með miklum jakaburði um klukkan 23 í gærkvöldi niður fyrir Selfoss. Nú er fyrirstaða vegna íss í ánni fyrir neðan Flugunes og flæðir áin yfir bakka sína í Sandvíkurhreppi.

Áin rennur utan venjulegs farvegs fyrir austan Flugunes og þar framhjá Kotferju og niður fyrir Kaldaðarnes, þar til hún finnur farveg sinn aftur um fimm kílómetrum neðar.

Allt á floti fyrir ofan Kaldaðarnes. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kotferja er umflotin og ófært þangað og sömuleiðis er Kaldaðarnesvegur er ófær og skemmdur og íbúar í Kaldaðarnesi innilokaðir. Fjórir áratugir eru síðan myndarleg klakastífla orsakaði svipað flóð í ánni.

Þegar áin ruddi sig í gærkvöldi þá flæddi hún yfir bakka sína ofan við Geitanes við Selfoss í gærkvöldi og yfir byggingarsvæðið við nýja skólphreinsistöð Selfyssinga. Þar fóru tæki á kaf og byggingarefni og verkfæri skoluðust á burt og er „óvinnufært“ við bygginguna vegna vatns.

Byggingarsvæðið við nýju skólphreinsistöðina á Geitanesi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Byggingarefni og verkfæri skoluðust á brott við skólphreinsistöðina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir leysingarnar síðustu daga er mikið rennsli á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár. Einungis hefur verið fært fyrir stóra bíla að Auðsholti í Hrunamannahreppi og Útverk á Skeiðum eru umflotin vatni eins og sjá má hér að neðan.

Útverk á Skeiðum. Ljósmynd/Steinar Guðjónsson
Gríðarmiklar hrannir eru á Geitanesi við Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Áin hefur flætt yfir bakka sína fyrir neðan Móaveg, þar sem kaþólikkar byggja nú kirkju. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Í gærkvöldi flæddi yfir veginn á Geitanesi við Selfoss og klakastykkin sitja eftir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Áin rennur af krafti yfir bakka sína austan við Flugunes í Sandvíkurhreppi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Kaldaðarnesvegur er ófær. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hér fyrir neðan er myndband frá Steinari Guðjónssyni, flugkappa á Selfossi, sem sýnir flóðið þar sem það rennur austan við bæinn í Kaldaðarnesi. Húsin í Kaldaðarnesi eru nokkurn veginn fyrir miðri mynd.

Fyrri greinOddfellowstúkan Atli færði Krabbameinsfélagi Árnessýslu styrk
Næsta greinReykræstu íbúð á Selfossi