Hugmyndir að Selfossvirkjun grundvallast á því að byggja í einu mannvirki stíflugarð með flóðgáttum og brú.
Eins og sunnlenska.is greindi frá í júlí er áhugi á að nýta nýja brú yfir Ölfusá jafnframt sem stíflu rennslisvirkjunar í ánni.
Morgunblaðið fjallar um málið í dag en þar segir Kristján Már Sigurjónsson, byggingaverkfræðingur hjá Verkís, að hugmyndin sé að steypa lágan þröskuld í ána og reisa síðan stöpla með 20 metra millibili. Á milli þeirra komi lokur sem stífli ána og lyfti vatnsborði hennar um 3-4 metra.
Þegar mikil flóð koma í ána verður hægt að opna þannig að hún flæði óhindruð fram.
Gangi þessar hugmyndir eftir verður vatnið tekið úr ánni að vestanverðu í gegnum niðurgrafið stöðvarhús og þaðan um rúmlega kílómetra löng frárennslisgöng sem veita vatninu aftur út í Ölfusá nokkru neðan við núverandi brú, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.