Ölfusforir eins og hafsjór yfir að líta

Arnarbælistorfan er orðin að eyju. Auðsholtshjálega nær. Ljósmynd: ENSu/Einar Sindri

Ölfusá flæðir yfir bakka sína í Ölfusinu og er Arnarbælistorfan umflotin vatni. Ölfusforir eru eins og hafsjór yfir að líta. Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær er ísstífla í ánni frá Flugunesi og niðurfyrir Ferjunes.

Vatn flæðir yfir veginn að Kotferju í Sandvíkurhreppi, á svipuðum slóðum og fyrr í desember. Þá flæðir vatn yfir veginn að Arnarbæli í Ölfusi, neðan við Auðsholtshjálegu, eins og sést á meðfylgjandi myndum. Miklir vatnavextir eru á austurbakka árinnar á þessum slóðum. Vatn tók að hækka skarpt um hádegisbilið í dag og rennur nú yfir veginn, tún og engjar eftir því sem fram kemur í frétt Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands.

Rennsli í Ölfusá er líklega í eða rétt við hámark við Selfoss. Rennsli mældist um 1.400 m/3 rétt fyrir 23 í gærkvöldi og hefur haldist nokkuð stöðugt síðan. Vatnsborð hefur ekki lækkað mikið á öðrum vatnsmælum ofar í Hvítá og er því líklegt að rennsli haldist nokkuð hátt næstu klukkustundir.

Þetta er mesta rennsli sem mælst hefur síðan 2013 þegar hámarksrennsli náði rétt um 1.430 m3/s við Selfoss. Hins vegar stefnir í að hámarksrennsli vari lengur nú og gæti því útbreiðsla flóðsins verið meiri.

Ljósmynd: ENSu/Einar Sindri
Vatn rennur yfir veginn að Arnarbæli sem sést í baksýn. Ljósmynd: ENSu/Einar Sindri

Fyrri greinÁrborg endurnýjar samning við Sleipni
Næsta greinStolt að eiga strák í landsliðinu