Sveitarstjórn Ölfuss leggst gegn því að Sveitarfélaginu Árborg verði heimilað eignarnám í Árbæjarlandi við Selfoss sem er innan staðarmarka Sveitarfélagsins Ölfuss.
Sveitarfélagið Árborg hyggst nýta svæðið til vatnsöflunar.
Málið var fyrst tekið fyrir af bæjarstjórn Ölfuss í lok maí og þar var samþykkt að boða boða eignarnámsþola til fundar til frekari upplýsingaöflunar. Forseti bæjarstjórnar, bæjarstjóri og forstöðumaður skipulags-, byggingar- og umhverfissviðs hafa síðan fundað með landeigendum og lögmanni þeirra.
Á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss í vor var samþykkt bókun þar sem lögð var áhersla á að hin fyrirhugaða vatnsöflun fari ekki fram nema á grundvelli samninga við landeigendur á svæðinu. Í þessu sambandi er minnt á að hinn 26. apríl 2010 skrifaði Sveitarfélagið Árborg undir samning við Flóahrepp og Landsvirkjun um sölu á hluta þess vatns sem það hyggst afla úr Árbæjarlindum í Ölfusi. „Er í hæsta máta óeðlilegt að Árborg ráðist í eignarnám á landi í Sveitarfélaginu Ölfusi en standi á sama tíma í vatnssölu til þriðja sveitarfélagsins,“ segir í bókun nefndarinnar.