Lesendur Sunnlenska fréttablaðsins og sunnlenska.is kusu Olgu Bjarnadóttur, fimleikaþjálfara og kennara á Selfossi, Sunnlending ársins 2011.
Olga hefur leitt starf fimleikadeildar Umf. Selfoss í áraraðir og tekið þátt í því brautryðjendastarfi sem þar var unnið. Iðkendur deildarinnar eru nú um 400 talsins og keppendur félagsins hafa unnið til ýmissa verðlauna bæði hér á landi og erlendis á undanförnum árum.
„Ég?“, segir Olga þegar henni er tjáð að hún hafi orðið hlutskörpust í kosningunni. „Maður hugsar alltaf að þetta eigi við um einhvern sem hefur bjargað mannslífum eða unnið einhver verðlaun,“ segir hún hlæjandi í viðtali í Sunnlenska fréttablaðinu í þessari viku.
Olga er borinn og barnfæddur Selfyssingur, fædd 6. maí 1975, dóttir hjónanna Bjarna Þórhallssonar og Maríu Olgu Traustadóttur, sem lést 6. júní 2008. Eiginmaður hennar er Guðmundur Sigmarsson, íþróttakennari, og eiga þau tvö börn.
Sunnlenska óskar Olgu til hamingju með titilinn og þakkar lesendum fyrir góða þátttöku í kosningunni.