Olgeir heiðraður í Áfangagili

Margt var um manninn þegar réttað var í Áfangagili síðastliðinn fimmtudag eftir smölun á Landmannafrétt.

Kristinn Guðnason fjallkóngur stýrði réttarstörfum að venju og gengu þau hratt og vel fyrir sig.

Í tilefni þess að Olgeir Engilbertsson frá Nefsholti varð áttræður í sumar og þjónustu við fjallmenn í rúma hálfa öld var hann heiðraður. Olgeir á að baki 55 ferðir á Landmannaafrétt og er hann því búinn að eyða meira en heilu ári af sinni ævi við smalastörf á Landmannaafrétti.

Það voru ráðskonurnar Þórhalla í Þjóðhólfshaga, Ólafía í Húsagarði og Hilda frá Læk ásamt Kristni Guðnasyni fjallkóngi sem afhentu Olgeiri og Guðnýju Finnu konu hans mynd tekna af Ragnari Axelssyni. Myndin sýnir Olgeir í Geimstöðinni í hráslagalegu veðri við smölun á Landmannaafrétti.

Það er von allra fjallmanna að Olgeir og Geimstöðin verði með fjallmönnum í mörg ár til viðbótar.

Fyrri greinUngmennaráð Árborgar fundaði með bæjarstjórn
Næsta greinArnar Freyr bestur hjá Árborg