Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar 2025 komu í hlut Óla Finnssonar og Ingu Sigríðar Snorradóttur í garðyrkjustöðinni Heiðmörk í Laugarási.
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, veitti verðlaunin á opnu húsi í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi á sumardaginn fyrsta.
Óli Finnsson og Inga Sigríður Snorradóttir keyptu garðyrkjustöðina Heiðmörk árið 2021 og hafa verið brautryðjendur í nýsköpun með framleiðslu á snakk paprikum, sæt paprikum og eldpipar ásamt. Óli hefur einnig verið öflugur í félagsmálum garðyrkjubænda en hann er hvatamaður að verkefnunum „Paprikur allt árið“ og „Brautryðjendur í garðyrkju“.
„Paprikur allt árið“ er tilraun á vegum Sölufélags garðyrkjumanna sem miðar að því að gera íslenskar paprikur aðgengilegar allt árið um kring. Í verkefninu “Brautryðjendur í garðyrkju” hafa Óli og Pálmi Jónasson unnið að viðtölum við þá garðyrkjubændur sem hafa verið í forsvari fyrir garðyrkjuframleiðslu undanfarin 40 ár og gert hana að þeirri þekkingargrein sem hún er í dag.