Sveitarfélagið Árborg hefur lokað neysluvatnsholu undir Ingólfsfjalli eftir mengunarslys í nágrenni hennar síðastliðinn þriðjudag.
Verið var að vinna við borun á nýrri vinnsluholu inni á grannsvæði vatnsverndar hjá sveitarfélaginu þegar glussaslanga fór í sundur og um 100 lítrar af olíu láku niður í jarðveginn.
Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu voru kallaðir út vegna þessa og stóð hreinsunarstarfið yfir í nokkra klukkutíma.
„Það var til happs að olían fór niður á frosna jörð. Hún lá öll á yfirborðinu og var hreinsuð upp með uppsogsefnum. Síðan var jarðveginum mokað upp og hann fluttur í burtu,“ sagði Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Svæðið vaktað með sýnatökum
Fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Suðurlands mættu einnig á vettvang og að sögn Sigrúnar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra HSL, verður svæðið vaktað með sýnatökum.
„Til öryggis lokaði sveitarfélagið þeirri neysluvatnsholu sem næst er borstaðnum og verður svæðið vaktað með sýnatökum samkvæmt ráðgjöf frá grunnvatnssérfræðingum Íslenskra orkurannsókna. Vatn úr þeirri holu fer ekki aftur inn á kerfið fyrr en niðurstöður vöktunar liggja fyrir,“ sagði Sigrún í samtali við sunnlenska.is.
Sveinn Ægir Birgisson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, sagði í samtali við sunnlenska.is að lokunin á holunni komi ekki til að hafa áhrif á afhendingu á köldu vatni í sveitarfélaginu.