Bæjarráð Árborgar mælist til þess við Heilbrigðisstofnun Suðurlands að leita allra leiða til að breyta fyrirkomulagi sýnatöku á Selfossi, þannig að ekki skapist örtröð í Þóristúni og á Eyravegi.
Bæjarráð telur ljóst að sýnatökustaðurinn í kjallara Kjarnans anni ekki öllu því álagi sem þangað er beint og að umferðin í gegnum hverfið valdi íbúum talsverðum óþægindum.
Málið var rætt á síðasta fundi bæjarráðs Árborgar að beiðni Gunnars Egilssonar, bæjarfulltrúa D-listans. Gunnar segir að skimunarröðin takmarki aðgang íbúa Þóristúns að heimilum sínum.
„Íbúarnir eru orðnir langþreyttir á þessu og það þarf að finna aðra lausn á þessari umferð. Ástandið er ólíðandi fyrir íbúa þessarar götu,“ segir Gunnar.