Umferðartafir eru á Suðurlandsvegi við Sólheimajökul vegna umferðarslyss um klukkan 8 í morgun. Olíuflutningabíll og fólksbíll lentu í árekstri og valt olíuflutningabíllinn á hliðina.
Vegurinn var lokaður fyrst eftir slysið en nú hefur verið opnað fyrir umferð um veginn en henni er stýrt af lögreglu og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát og taka tillit til aðstæðna.
Einhver slys eru á fólki og þá lekur olía úr olíuflutningabifreiðinni. Lögreglan á Suðurlandi getur ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu.