Olíuflutningabíll valt á Kolsholtsvegi í Flóa í gærmorgun eftir að vegkantur gaf sig þegar ökumaður vék fyrir umferð á móti.
Lítilsháttar olía lak af bílnum en í fyrstu var ekki vitað hvort olíuleki væri frá neyslutanki bílsins eða flutningstanki.
Við komu á vettvang reyndist aðeins um leka frá neyslutanki að ræða og er talið að um 15 lítrar hafi lekið niður áður en slökkviliðsmenn náðu að stöðva lekann.
Um 14 þúsund lítrar af olíu voru í flutningstankinum svo mikil mildi var að lekinn var ekki frá honum. Starfsmenn frá Olíudreifingu komu á vettvang og hreinsuðu þá olíu sem lekið hafði niður.
Ökumaðurinn var fluttur með minniháttar meiðsl til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.