Mikil olía lak úr jeppa ferðaþjónustuaðila við Flosagjá á Þingvöllum í gær með þeim afleiðingum að olía rann í Flosagjá með tilheyrandi olíubrák.
Olían af bílastæðinu átti greiða leið eftir svelli og klaka niður að brúnni yfir Flosagjá og þaðan niður í vatnið. Landverðir í þjóðgarðinum brugðust strax við með því að sækja sag og dreifa í olíuflekkina og brjóta klaka til að stýra smitinu frá því að renna í gjánna.
Þrátt fyrir það barst nokkur olía í tært vatnið í Flosagjá. Leiðsögumaðurinn lét sig hverfa meðan landverðir eyddu miklum tíma frameftir degi í að hreinsa upp olíusmitað sag.
Á Facebooksíðu þjóðgarðsins segir að undanfarin misseri hafi borið meira á slíkum sóðaskap af bílum sem stansa í þjóðgarðinum og er þetta ekki í fyrsta sinn á þessu ári sem slíkt gerist.
Málið verður tilkynnt til lögreglu og heilbrigðiseftirlits en upplýsingar liggja fyrir um leka bílinn.