Að kröfu smitrakningarteymis Almannavarna og sóttvarnalæknis fara öll börn á Álfasteini og Dvergasteini í leikskólanum Álfheimum á Selfossi í sóttkví frá og með 16. apríl til og með 23. apríl, þar sem þau voru útsett fyrir smiti vegna COVID-19.
Þá fara allir starfsmenn á Mánasteini einnig í sóttkví. Foreldrar munu fá nánari upplýsingar frá smitrakningarteyminu á næstu dögum.
Ef ungt barn er sett í sóttkví er nauðsynlegt að fullorðinn einstaklingur fari í sóttkví með barninu, aðrir heimilismeðlimir þurfa ekki að fara í sóttkví nema að annað sé tekið fram. Samkvæmt verklagi smitrakningarteymis þá er einungis barnið skráð formlega í sóttkví en forráðamaður sem er með barninu í sóttkví er ekki skráður í sóttkví.
Eins og sunnlenska.is greindi frá í gærkvöldi hefur vaknað grunur um COVID-19 smit hjá tveimur nemendum í Vallaskóla. Allir nemendur í þessum bekkjum eru í úrvinnslusóttkví ásamt öllu heimilisfólki. Samkvæmt heimildum sunnlenska.is eru starfsmenn frístundaheimilisins Bifrastar í Vallaskóla einnig komnir í sóttkví.
Í tilkynningu frá Árborg segir að eðlilega sé mikil röskun á skólastarfi Álfheima, Vallaskóla og Bifrastar þar sem margir munu fara í skimun í dag. Skólastjórnendur eru í góðu sambandi við rakningateymið og senda upplýsingapóst til forráðamanna nemenda og starfsfólks um leið og nýjar upplýsingar berast frá teyminu.