Lík mannanna fjögurra sem fundust í Þingvallavatni eftir að TF-ABB lenti í vatninu í síðustu viku eru nú öll komin í land og hafa verið flutt til Reykjavíkur.
Aðgerðir á Þingvallavatni gengu vel eftir hádegi í dag en í froststillunni í morgun hamlaði ís á vatninu aðgerðum. Aðstæður til köfunar voru verulega hættulegar, að sögn lögreglu, vegna mikils kulda og ísmyndunar á vatninu.
Því var fenginn smákafbátur með myndavélabúnaði og griparmi og sótti hann líkin niður á botn og færði upp undir yfirborð vatnsins, þar sem kafarar tóku við hinum látnu og komu þeim um borð í báta.
Lögregla og björgunaraðilar funda nú um aðgerðir morgundagsins en stefnt er að því að ná flugvélinni upp úr vatninu á morgun, ef veður og aðstæður leyfa.