Stöllurnar Steinunn Kristín Hafsteinsdóttir og Agnes Hólm Gunnarsdóttir stofnuðu nýlega fyrirtækið Afburðaleiðtoginn en eins og nafnið bendir til þá kenna þær fólki að vera afburða leiðtogar.
Steinunn er jógakennari og jógaþreapisti og Agnes er verkfræðingur, rithöfundur og kennari við Háskólann í Reykjavík þar sem hún kennir meðal annars verkefnastjórnun, breytingastjórnun og gæðastjórnun. Á vinnustofum sínum blanda þær saman jógafræðum og afburðastjórnun með það markmið að efla leiðtoga framtíðarinnar.
Hafa mikinn eldmóð fyrir umbótun
Vinkonurnar kynntust á ferðalagi 2023. „Við vorum báðar einar á ferð og ákváðum að verja tíma saman. Við komumst að því að við höfðum báðar mikinn eldmóð fyrir umbótum, þróun og hvernig við getum vaxið bæði í starfi og einkalífi. Við höfum báðar mjög víðtæka reynslu á vinnumarkaði bæði í að stjórna verkefnum, hópum á vinnustöðum og að vera með eigin rekstur. Eftir ferðalagið kom þessi hugmynd upp hjá Agnesi að við ættum að gera vinnustofu og blanda þessum ólíku en samt líku nálgunum saman það er að segja verkefnastjórnun og jóga,“ segir Steinunn í samtali við sunnlenska.is.
„Við fórum á fullt í febrúar á þessu ári að búa til kennsluefni fyrir vinnustofur og héldum fyrstu opnu vinnustofuna í apríl og voru viðtökur góðar. Í framhaldinu höfum við fengið beiðnir um vinnustofur fyrir starfsmannahópa.“
Hjartaopnandi endurhugsun og iðnaðarverkfræði
Á vinnustofunni er lærir fólk margvíslega hluti. „Þetta er vinnustofa þar sem farið er djúpt í hugarfarslega og hjartaopnandi endurhugsun á hvernig við rekum skipulagsheildir. Á vinnustofunni er blandað saman verkfræðilegu umbótastarfi og andlegri vegferð sem nýtist okkur í að vera heilsteyptari og betri leiðtogi bæði í starfi og okkar eigin lífi. Öll viljum við jú innst inni vera leiðtogar í okkar eigin lífi.“
„Á vinnustofunni er afburðastjórnun, rannsóknum á hvað raunverulega virkar og jógafræði soðið saman í uppskrift sem kemur skemmtilega á óvart. Við erum að bjóða fyrirtækjum upp á vinnustofur sem við sníðum að þeirra þörfum, þá er í boði að vera með vinnustofuna á vinnustaðnum sjálfum eða í utanaðkomandi sal.“
„Þetta er námskeið fyrir alla sem vilja gera umbætur og vera leiðtogar í sínu eigin lífi og eða á sínum vinnustað,“ segir Steinunn ennfremur.