Öllum leiðum lokað frá Selfossi – Fjöldahjálparstöðvar opnaðar

Björgunarsveitarfólk var í viðbragðsstöðu í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ákveðið hefur verið að loka öllum vegum til og frá Selfossi og hefur Rauði krossinn opnað fjöldahjálparstöð í húsnæði sínu við Eyraveg á Selfossi.

Einnig er búið að opna fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Borg í Grímsnesi til þess að taka á móti ferðafólki sem ekki kemst leiðar sinnar.

Að sögn Erlu G. Sigurjónsdóttur, deildarstjóra hjá Rauða krossinum í Árnessýslu, er enginn kominn í skjól í stöðinni á Selfossi en einhverjum ferðamönnum úr uppsveitunum hefur verið vísað á Borg.

Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi er búið að loka öllum leiðum til og frá Selfossi og er fólk beðið um að vera ekki á ferðinni. Allar leiðir á Suðurlandi austur að Þjórsá eru ófærar. Mjög þungfært er í Árnessýslu og er fólk beðið um að halda sér innan dyra og hringja í 112 í neyðartilfellum.

Veðurofsinn mun ganga til austurs eftir sem líður á kvöldið og má búast við að Suðurlandsvegi verði lokað fyrir austan Hvolsvöll um kl. 22.

Fyrri greinHellisheiði og Þrengslum lokað – Aðgerðastjórn virkjuð
Næsta greinRafmagnslaust í Sandvíkurhreppi