Þrjú tilboð bárust í viðbyggingu við leikskólann Óskaland í Hveragerði og reyndust þau öll talsvert yfir kostnaðaráætlun sveitarfélagsins. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti í gær að hafna öllum tilboðunum og ganga til samkeppnisviðræðna við tilboðsgjafa.
Hrafnshóll ehf átti lægsta tilboðið í verkið, 654,3 milljón króna frávikstilboð, Terra einingar bauð 930,4 milljónir króna sem einnig var frávikstilboð en hæsta tilboðið átti Búlandshöfði ehf sem bauð rúmlega 1,4 milljarða króna í verkið. Kostnaðaráætlun Hveragerðisbæjar hljóðar upp á 540 milljónir króna.
Um er að ræða 596m² leikskólabyggingu úr forsmíðuðum einingum til leigu á lóðinni Réttarheiði 45 með forkaupsréttarákvæðum. Í viðbyggingunni verða fjórar leikskóladeildir.
Í upphafi þessa árs var ákveðið að fresta byggingu leikskóla í Kambalandi og stækka Leikskólann Óskaland um fjórar deildir auk þess að bæta starfsmannaaðstöðu og var jarðvinnan boðin út í ágúst síðastliðnum.
Í bókun meirihlutans segir að öll framkomin tilboð hafi falið í sér slík frávik frá verklýsingu að bænum sé óheimilt að ganga að þeim, auk þess sem þau voru of há miðað við kostnaðaráætlun. Lægsta tilboðið er ríflega 21% yfir áætlun og teljist þau því óaðgengileg. Bærinn muni því ganga til samkeppnisviðræðna við tilboðsgjafana.
„Allt frá opnun tilboða hefur starfsfólk bæjarskrifstofunnar ásamt ráðgjöfum farið yfir tilboðin og unnið að nánari útfærslu þeirra með það að markmiði að finna hentuga lausn og bendir allt til þess að sú vinna muni skila ásættanlegum árangri í samræmi við kostnaðaráætlun,“ segir í bókun meirihlutans.
Fulltrúar minnihlutans bókuðu að niðurstaða útboðsins væri gríðarleg vonbrigði fyrir íbúa Hveragerðisbæjar og nú ríkti algjör óvissa um hvenær megi búast við fjölgun leikskólaplássa í bæjarfélaginu. Það muni hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni. Fulltrúar D-listans hafi ætíð verið þeirrar skoðunar að fjármunum bæjarins væri betur borgið í uppbyggingu á nýjum leikskóla í Kambalandi.