Ólöf Jóna Tryggvadóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri í Sveitarfélaginu Árborg en hún hóf störf þann 2. janúar síðastliðinn.
Ólöf Jóna hefur lokið MSc gráðu í vinnumarkaðsfræði og mannauðsstjórnun frá London School of Economics, BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og APME í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík auk kennsluréttinda.
Áður en hún hóf störf hjá Árborg starfaði Ólöf Jóna sem verkefnastjóri í mannauðsdeild Ístak. Hún hefur víðtæka reynslu á sviði kjaramála, mannauðsráðgjafar og rannsókna m.a. fyrir stéttarfélög innan BHM, Samband íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands.
Þrettán umsækjendur voru um starfið sem var auglýst í lok síðasta árs að tillögu Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra. Enginn mannauðsstjóri var starfandi hjá Árborg en almennt má reikna með að mannauðsstjóra sé þörf þegar starfsmannafjöldi nær 80-120. Starfsmenn Árborgar eru fleiri en 700.