Selfyssingurinn Ólöf Ólafsdóttir á Tannstaðabakka í Hrútafirði er Maður ársins 2018 á Norðurlandi vestra. Hún sigraði í kjöri sem héraðsfréttablaðið Feykir stóð fyrir og hlaut nokkuð afgerandi kosningu lesenda.
Í tilnefningu sem Feyki barst segir: „Ólöf er þvílík gullkona, hún er með Parkinson en það stoppar hana ekki í því að gefa endalaust af sér. Til dæmis saumar hún teppi (bútasaum) og selur og gefur svo allan ágóða til góðgerðamála. Mikil perla.“
Ólöf er fædd og uppalin á Selfossi en hefur búið, ásamt manni sínum Skúla Einarssyni, á Tannstaðabakka við Hrútafjörð frá árinu 1984 en Skúli er uppalinn þar.
Fyrir þremur árum greindist Ólöf með Parkinsonsjúkdóminn en telur að hún hafi verið lengur með sjúkdóminn án þess að gera sér grein fyrir því. Hefur hún vakið athygli fyrir jákvæðni sína og baráttu við sjúkdóminn en meðal þess sem hún tók sér fyrir hendur eftir að hún greindist var að sauma bútasaumsteppi og selja og hefur hún gefið andvirði þeirra til góðgerðamála í Húnaþingi vestra.