Ólöf Árnadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu Rangárþings, hefur verið ráðin í stöðu hjúkrunardeildarstjóra á hjúkrunardeildum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, Ljósheimum og Fossheimum.
Ólöf lauk námi í hjúkrunarfræði frá HÍ árið 2003 og meistaranámi í stjórnun í heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst árið 2011. Þar lagði hún áherslu á straumlínustjórnun í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Ólöf hefur sótt fjölmörg námskeið á svið hjúkrunar og stjórnunar.
Ólöf hefur víðtæka starfsreynslu bæði innan lands og utan, í sjúkrahús-, hjúkrunar- og heilsugæsluþjónustu. Hún hefur starfað hjá HSU frá árinu 2008 og sem hjúkrunarstjóri heilsugæslu Rangárþings frá árinu 2010. Ólöf hefur sinnt félagstörfum m.a. fyrir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Krabbameinsfélag Rangárþings og Ungmennafélagið Heklu
Guðlaug Einarsdóttir, fráfarandi hjúkrunardeildarstjóri, hefur verið ráðin í stöðu sérfræðings á heilbrigðissviði í Velferðarráðuneytinu.
Þá hefur Birna Gestsdóttir, hjúkrunarfræðingur, verið ráðinn deildarstjóri bráðamóttöku á Selfossi frá 15. október næstkomandi. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs en bráðamóttakan hefur verið rekin með lyflækninga- og göngudeild HSU á Selfossi. Guðrún Kormáksdóttir stýrir áfram lyflækninga- og göngudeild.