Klukkan 1:45 aðfaranótt sunnudags barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um bílveltu á Þorlákshafnarvegi á milli Hveragerðis og Þrengslavegar.
Þar hafði ökumaður, sem var einn á ferð, misst stjórn á bifreiðinni sem valt eina 30 metra út fyrir veg. Maðurinn slapp með skrámur en bifreiðin er gjörónýt. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áfengisáhrifum við aksturinn.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.
Í síðustu viku voru 44 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Einn þeirra var sviptur ökurétti til bráðabirgða eftir að hafa verið mældur á 178 kílómetra hraða á leið austur Skeiðarársand á vegarkafla á móts við Háöldukvísl um kvöldmatarleytið á föstudag. Hann var færður á lögreglustöðina á Kirkjubæjarklaustri þar sem hann var yfirheyrður um meint brot og í framhaldi sviptur ökuréttindum. Mál hans verður sent ákæruvaldinu til frekari meðferðar.
Erlendur ferðamaður var kærður fyrir akstur utan vega á Skeiðarársandi austan við Gýgjukvísl. Lögreglu barst tilkynning um aksturinn. Lögreglumenn á Höfn náðu til mannsins sem játaði brotið og gekkst undir sektargreiðslu.