Ólýsanleg gleði að fá Bjart aftur heim

Bjartur var fremur lúinn í morgun þegar hann fannst en var farinn að braggast núna seinni partinn. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Hundurinn Bjartur sem leitað hefur verið að á Selfossi síðan á föstudaginn fannst heill á húfi í morgun. Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær hefur hópur fólks leitað að Bjarti bæði nótt og dag síðan á föstudaginn.

Í morgun komu nemendur í 7. bekk Stekkjaskóla svo auga á Bjart þar sem var á gangi á göngustígnum sem liggur meðfram skólanum. Þess má geta að síðast sást til Bjarts á túninu vestan við skólann á föstudaginn.

„Við erum bara í sæluvímu. Hann virðist vera alveg í lagi en hann er alveg ofboðslega þreyttur og hann er skítugur. Hann er búinn að fá tvo, þrjá bita að borða. Við gáfum honum verkjapillur í lifrarbita, því að það má víst ekki gefa honum of mikið næstu þrjá klukkutímana heldur auka smátt og smátt,“ segir Lilja Sigurrós Jónsdóttir, eigandi Bjarts, í samtali við sunnlenska.is.

105 ára í mannsárum
Lilja segir að Bjartur sé alveg búinn á því. „Hann labbar nokkur skref og lekur svo niður. En hann er alveg ótrúlegur. Vonin var náttúrulega farin að dofna hjá okkur að hann myndi finnast, enda var hann týndur í fjóra daga og er orðinn 105 ára í mannsárum. Gleðin er ólýsanleg að hann sé kominn aftur heim.“

Alma, dóttir Lilju, átti upphaflega Bjart en hún lést fyrir rúmum fjórum árum. „Við tókum hann þá að okkur. Við ætluðum aldrei að eiga hund en hann er bara eins og hugur manns. Hann er bara himneskur.“

Stoppaði bíl í hringtorginu
Lilja fékk símtal frá Stekkjaskóla í morgun þar sem henni var tjáð Bjartur væri fundinn. „Ég stökk bara upp úr rúminu og hringdi í fjölskylduna mína til að segja þeim tíðindin. Maðurinn minn var kominn eldsnemma út í morgun út í móa að leita að Bjarti. Hann var lengst í burtu.“

„Ég þaut bara út og stoppaði næsta bíl í hringtorginu og spurði hann hvort hann vildi keyra mig út í Stekkjaskóla – hann var til í það,“ segir Lilja létt í bragði en þau hjónin búa við Eyraveginn.

Krakkarnir í 7. bekk í Stekkjaskóla hlúðu vel að Bjarti þar til eigandinn sótti hann. Ljósmynd/Lilja Heiðbjört Valdimarsdóttir

Óendanlega þakklát
Hátt í 70 manns voru í leitarspjallinu þar sem leitin að Bjarti var skipulögð. Lilja segir að hún hafi engan veginn átt von á því að svona margir myndu taka þátt í leitinni.

„Allt þetta yndislega fólk. Við eigum ekki til orð. Eins og dóttir mín sagði: Við fjölskyldan erum ekki oft orðlaus en við eigum ekki til orð núna. Bara að fólk sé tilbúið að leita að gæludýrinu þínu, það hefur aldrei séð það og aldrei séð okkur og fer svo út að leita – og eins og veðrið er búið að vera. Við erum alveg óendanlega þakklát.“

„Við erum himinlifandi að Bjartur sé kominn heim. Endalausar þakkir til alls þessa fólks. Við ætlum að reyna að gera eitthvað og sýna þakklæti okkar í verki. Við ætlum að hafa samband við skólann og athuga hvort það sé eitthvað þar sem þau séu að safna fyrir. Allir í fjölskyldunni eru búnir að leggja inn á Dýrfinnu en samtökin hafa veitt okkur ómetanlega hjálp.“

„Að svona gott fólk sé að gera svona fyrir bláókunnugt fólk, ég er bara klökk yfir þessu,“ segir Lilja að lokum.

Allir tilbúnir að láta honum líða vel
Sunnlenska.is hafði samband við Lilju Heiðbjörtu Valdimarsdóttur, stuðningsfulltrúa við Stekkjaskóla, en það voru hún og bekkurinn hennar sem fundu Bjart.

„Við vorum í kennslu í skólanum þegar ég sé hund labba einn um gangstéttina rétt við skólalóðina. Ég fer að velta fyrir mér hvort þetta sé Bjartur og segi krökkunum frá því og þau labba öll út til að ná honum og það var ekkert mál.“

„Við fórum með hann inn og gáfum hinum vatn og skinkubita. Ég var svo búin að heyra í eigandanum og sem var á leiðinni. En allir nemendurnir voru tilbúnir að hjálpa honum og láta honum líða vel.“

Sigríður Elva Jónsdóttir, nemandi í 7. bekk, segir að þau krakkarnir hafi sprottið á fætur þegar þau áttuðu sig á því að þetta væri Bjartur. „Það voru allir mjög glaðir að finna hann enda er þetta eldgamall hundur.“

Fyrri greinUndirbúningur hafinn að breikkun Þjóðvegar 1 austan við Selfoss
Næsta greinSviða- og svínasulta menguð af bakteríu og E. coli