Miklar umferðartafir eru í miðbæ Selfoss þessa stundina en stór hópur mótmælenda hefur lokað brúnni sunnanmegin til þess að mótmæla gjaldtöku sem hófst við brúnna í morgun.
Eins og fjölmiðlar greindu frá í síðustu viku var tillaga Langanessbænda, utan ár á Selfossi, um brúartoll yfir Ölfusárbrú samþykkt fyrir skömmu en tollinum er ætlað að standa straum af byggingu langþráðrar göngubrúar yfir ána. Gjaldið yfir brúna er þrjár evrur.
Þegar fyrirhuguð tollheimta spurðist út hóf hópur íbúa í mjólkurbúshverfinu á Selfossi undirskriftarsöfnun á Facebook þar sem gjaldtökunni er mótmælt og krafist lögbanns á hana. Hópurinn lætur ekki þar við sitja heldur var boðað til samstöðufundar við brúarsporðinn í morgun.
„Mér finnst fullkomlega fáránlegt að einhver geti rukkað fyrir umferð yfir brú sem hann á ekki. Það er kannski í lagi að rukka útlendinga en ekki Íslendinga, og hvað þá heimamenn sem fara daglega yfir brúna. Ég tek til dæmis bílasölurúnt á hverjum degi og það myndi kosta mig tæpar 170 þúsund krónur á ári,“ sagði Guðmundur Borgar Kjartansson, talsmaður mótmælenda í samtali við sunnlenska.is.
„Við ætlum að vera hér við brúna til klukkan fimm í dag og hvetjum fólk til að mæta gangandi eða hjólandi. Ég ítreka að þetta eru friðsöm mótmæli og við erum fyrst og fremst hér til að sýna samstöðu,“ segir Guðmundur Borgar ennfremur.
Lögreglan er á staðnum og fylgist með mótmælendunum en hún hefur ekki þurft að grípa til neinna aðgerða.
UPPFÆRT KL. 22:54: 1. APRÍL!!!!