Önnu Gretu Ólafsdóttur, skólastjóra Flóaskóla, var sagt upp störfum í lok síðustu viku eftir tæplega þriggja ára starf.
Eydís Indriðadóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, staðfestir þetta en hún vildi ekki ræða ástæður uppsagnarinnar við sunnlenska.is.
Í morgun var send tilkynning til foreldra allra barna í Flóaskóla frá fundi fræðslunefndar og sveitarstjórnar þar sem uppsögn Önnu Gretu er staðfest. Uppsagnarfrestur er þrír mánuðir en þar sem skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og deildarstjóri stoðþjónustu tilkynntu allir forföll í upphafi vikunnar þá var sveitarstjóra falin stjórn skólans þann tíma.
Katrín Ósk Þráinsdóttir, aðstoðarskólastjóri, hefur nú mætt aftur til starfa og tekið við stjórn skólans.
Á fundi fræðslunefndar og sveitarstjórnar í morgun var einnig rætt um velferð nemenda og ábyrgð fullorðinna á umræðunni um skólann þeirra. Sveitarstjóra var falið að senda erindi til foreldra og tilkynningu í Áveituna um stöðu mála í skólanum.
Einnig var samþykkt á fundinum að leita til utanaðkomandi ráðgjafa til þess að fara yfir mannaflaþörf í skólanum miðað við stærð hans í dag. Leitað verður til ráðningarfyrirtækis vegna ráðningar skólastjóra fyrir næsta skólaár.
Á Facebooksíðu sinni greinir Anna Greta frá því að uppsögnin hafi verið fyrirvaralaus og að hún hafi ekki fengið áminningu áður en kom til uppsagnar. Ekki hafi verið óskað eftir upplýsingum frá henni um þær ásakanir sem sveitarstjórn ber upp á hana. Hún segir uppsögnina eins ólöglega og hugsast má.
Anna Greta greinir ennfremur frá því að á fundi sem tveir sveitarstjórnarmenn og sveitarstjóri héldu með starfsfólki skólans í gær, hafi komið fram að ástæða uppsagnarinnar byggðist fyrst og fremst á niðurstöðum foreldrakönnunar Skólapúlsins.
Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa nokkrir kennarar við skólann sagt upp störfum eftir að Önnu Gretu var sagt upp.