Önnur lægð á leiðinni og önnur gul viðvörun

Önnur djúp lægð er á leiðinni til okkar á morgun með tilheyrandi leiðindaveðri um allt land.

Seinnipartinn á sunnudag fer að hvessa, einkum syðst á landinu með austan og norðaustan hvassviðri eða stormi. Um er að ræða svæði frá Öræfum og vestur undir Eyjufjöll. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland sem gildir frá klukkan 18 á sunnudag til klukkan 6 á mánudagsmorgun.

Talsverð eða mikil rigning fylgir lægðinni á Suðausturlandi og Austfjörðum og má búast við miklu vatnsveðri annað kvöld og allan mánudaginn. Mikilvægt er fyrir ferðafólk að fylgjast vel með veðurspám og -viðvörunum.

Það lægir sunnan- og austanlands á mánudag, en að sama skapi gengur í norðaustan hvassviðri norðvestantil, sem getur reynst varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Fyrri greinTilþrif í Torfdal
Næsta greinLögreglan stöðvaði meintan fíkniefnasala