Að höfðu samráði við vísindamenn hefur lögreglustjórinn á Hvolsvelli ákveðið að aflétta lokun á veginum inn í Þórsmörk.
Áfram er full ástæða til að hafa vara á sér þegar þessi leið er farin en vegna vatnssöfnunar nærri eldstöðinni í toppi Eyjafjallajökuls er áfram hætta á vatnsflóði niður Gígjökul.
Vísindamenn telja ekki hættu á vatnsflóði á næstu dögum en áfram er fylgst náið með því sem er að gerast í og við eldstöðina og verður umferð takmörkuð á ný ef ástæða er til.
Lónsstæðið neðan Gígjökuls er áfram hættusvæði en þangað leita eitraðar gastegundir sem enn eru að losna frá eldstöðinni og úr nýja hrauninu.