Opið hús verður í Heilsuleikskólanum Árbæ á Selfossi dagana 13.-16. júní kl. 13-16, í tilefni af 20 ára afmæli leikskólans.
Árbær opnaði 14. júlí 2002 að Fossvegi 1 en forveri hans var leikskólinn Árborg, sem var stofnaður 31. mars 1995. Leikskólinn Árborg var sérstakur að því leyti að hann var samstarfsverkefni Selfossbæjar, Sandvíkurhrepps, Ölfushrepps, Gaulverjabæjarhrepps og Villingaholtshrepps og var því rekstraraðili byggðasamlag Árbæjar. Hann var staðsettur í gömlu íbúðarhúsi við Kirkjuveg sem seinna var rifið vegna viðbyggingar Hótels Selfoss.
Sjö deildir í dag
Nafni leikskólans var breytt í mars 1999 þegar Sveitarfélagið Árborg varð til og í dag heitir leikskólinn, Heilsuleikskólinn Árbær.
Í gamla Árbæ voru 50 hálfsdagspláss, 25 börn fyrir hádegi og 25 eftir hádegi. Þann 14. júlí 2002 var opnaður nýr fjögurra deilda Árbær, sem rekinn er af Sveitarfélaginu Árborg. Þann 1. mars 2006 var bætt við bráðabirgðahúsnæði sem hýsir tvær deildir og við þær breytingar varð Árbær sex deilda leikskóli. Sjöunda deildin bættist svo við í byrjun árs 2020.
Starfar eftir heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur
Heilsuleikskólinn Árbær starfar eftir heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur frá Vorsabæ í Gaulverjabæ. Markmið stefnunnar er að auka gleði og vellíðan barna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik og starfi. Heilsubók barnsins er notuð til að mæla hvernig börnum gengur að ná markmiðum leikskólans. Bókin er einstaklingsnámskrá hvers barns sem það fær að gjöf í lok leikskóladvalar sinnar. Hún hefur að geyma útfærð skráningarblöð varðandi þroska og ýmsar upplýsingar um barnið.
Skráningin gerir starfsfólki og foreldrum kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og er einnig tæki til að upplýsa foreldra um stöðu þess í leikskólanum. Skráð er m.a. heilsufar, hreyfifærni, úthald, hæð og þyngd, næring og svefn, lífsleikni og færni í listsköpun. Skráningin fer fram tvisvar sinnum á ári, haust og vor og foreldrum boðið í viðtal í kjölfarið.
Einkunnarorð Árbæjar eru Virðing – Velferð – Vinátta.