Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi á sumardaginn fyrsta, milli klukkan 10 og 17.
Á sölutorgi verður hægt að nálgast ferskt grænmeti, blóm, kryddolíur, jarðaberjaplöntur tilbúnar í stofugluggann og fleira til. Bananahúsið verður opið fyrir þá sem vilja smá hitabeltisstemmingu og á útisvæðum verða vélar og tæki til sýnis og hægt að fá ketilkaffi og kannski sykurpúða til að grilla.
Einnig verða verkefni nemenda til sýnis í verknámshúsi, þar verður einnig pylsusala og í eldhúsinu verður boðið upp á vöfflur, kaffi og kakó til sölu, ásamt ís sem hægt er að njóta í hlýjunni í garðskálanum.
Um miðjan daginn verður hátíðardagskrá þar sem forseti Íslands afhendir garðyrkjuverðlaunin, sem nú eru veitt í 20. sinn. Einnig verða umhverfisverðlaun Hveragerðis afhent.