Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum í gær að framvegis verði minnisblöð, fundargerðir og önnur gögn sem eru til umfjöllunar á fundum bæjarstjórnar, bæjarráðs og nefnda aðgengilegar rafrænt með fundargerðum sveitarfélagsins.
Það voru fulltrúar S-listans í minnihlutanum sem báru upp þessa tillögu og var samþykkt samhljóða að framkvæmdastjóra sveitarfélagsins verði falið að gera tillögu að útfærslu og reglum og leggja fyrir bæjarráð.
Í greinargerð sem Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista, lagði fram með tillögunni segir að það sé afar mikilvægt að í sveitarfélaginu sé ástunduð opin og gegnsæ stjórnsýsla þannig að allir sem áhuga hafa á geti fylgst með afgreiðslum mála og á hverju þær eru byggðar.
„Þrátt fyrir að fundargerðir séu aðgengilegar á vefnum þá er ekki auðvelt að átta sig á málum út frá þeim knappa stíl sem oft einkennir þær. Við eigum ávallt að stefna að því að gera stjórnsýsluna sem aðgengilegasta fyrir íbúana,“ segir í greinargerðinni.