Opnunarhátíð Vitaleiðarinnar verður á morgun, laugardaginn 12. júní kl. 13:00 við félagsheimilið Stað á Eyrarbakka.
Vitaleiðin er ný ferðaleið við suðurströndina, sem nær frá Selvogi í Ölfusi að Knarrarósvita í Árborg og er tæplega 50 km löng, eftir því hvort ekið er eftir vegi eða strandlínan sé nýtt. Vitaleiðin býður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana, nýtt strandlengjuna eða þá göngustíga, sem búið er að leggja meðfram ströndinni, gengið, hlaupið, farið ríðandi á hestum eða jafnvel hjólað.
Á opnunarhátíðinni verða flutt ávörp, tónlistaratriði og síðan munu bæjarstjórar Árborgar og Ölfuss klippa á borða og þannig opna Vitaleiðina formlega.
Íslendingar og aðrir ferðamenn eru hvattir til að upplifa Vitaleiðina og allt það sem hún hefur upp á að bjóða en Vitaleiðin er unnin í samvinnu Markaðsstofu Suðurlands, Sveitarfélagsins Árborgar, Sveitarfélagsins Ölfuss ásamt rekstraraðilum á svæðinu.