Lögreglan á Selfossi var kölluð út tvisvar eftir að það sló í brýnu milli unglingahópa seint í gærkvöldi. Um tvö óskyld mál er að ræða.
Í öðru þeirra var ungmenni slegið með þeim afleiðingum að rifbein brákaðist. Í hinu kom ekki til átaka en því er haldið fram að hnífur hafi farið á loft.
Að sögn lögreglu tengjast málin ekki en allir unglingarnir eru að svipuðum aldri, eða 14 til 15 ára.
Um kl. 22 í gærkvöldi leiddu deilur 4-5 ungmenna til þess að eitt þeirra var slegið utandyra á Selfossi og er talið að rifbein hafi brákast.
Um miðnætti stóð annar hópur unglinga, sem voru einnig um fimm talsins, í deilum við Hótel Selfoss. Því er haldið fram hnífur hafi verið dreginn upp og hann notaður til að ógna hluta viðstaddra. Ekki kom til beinna átaka.
Lögreglan hefur rætt við öll ungmennin og segir að bæði gerendur og þolendur séu þekktir. Hún bendir á að hnífurinn hafi ekki fundist og í því máli stendur orð gegn orði. Lögreglan lítur málið hins vegar alvarlegum augum.
Erfitt að sinna verkefnum sökum manneklu
Vegna annarra mála átti lögreglan jafnframt erfitt að sinna verkefnunum vegna manneklu, en hún var m.a. tvisvar sinnum kölluð út vegna gleðskapar sem var haldið í heimahúsi í bænum. Þar voru samankomnir 7-8 einstaklingar sem voru í mikilli óreglu og neyslu, en sjúkrabifreið var m.a. send á vettvang vegna málsins.
Þar sem aðeins tveir lögreglumenn voru á vakt var þriðji lögreglumaðurinn kallaður út til að veita þeim aðstoð til að ná utan um öll mál. Lögreglan tekur fram að þetta hafi verið mjög óvenjuleg nótt.