Viðbragðsáætlun Selfossveitna hefur verið virkjuð eftir að eldsvoði varð í dæluhúsi einnar af borholum Selfossveitna í Þorleifskoti í Flóahreppi í nótt. Þar brann rafmagnsskápur og vegna þessa er orkuöflun hitaveitunnar verulega skert.
Í tilkynningu frá Selfossveitum eru íbúar hvattir til að huga vel að sínum enda hitaveitunnar og fara sparlega með vatn. Einnig er hægt að spara vatn og kyndikostnað með því að gæta að því að gluggar og útidyr standi ekki opnar of lengi, að stillingar ofna séu réttar og þeir ekki byrgðir auk þess sem heitir pottar séu þurftafrekir á vatn og hafa þurfi í huga að fara sparlega með neysluvatn, eins og við uppvask og böð.
Að sögn Sigurðar Þórs Haraldssonar, veitustjóra, kom tilkynning um bilun í holu klukkan þrjú í nótt.
„Þá fer vaktmaður á staðinn og honum mætir bara svartur reykur. Þannig að slökkviliðið var kallað út ásamt HS veitum til að rjúfa straum á húsinu. Slökkvistarfið gekk vel en það er algjör mildi að eldurinn barst ekki í húsið, því þetta er timburhús. Við erum að reyna að ná utan um ástandið núna en það mun taka langan tíma að gera við þetta,“ sagði Sigurður í samtali við sunnlenska.is.