Orkuveita stofnuð í uppsveitunum

Sveitarstjórnir Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps hafa ásamt garðyrkjubændum stofnað félagið Uppsveitarorku ehf. Félagið ætlar að sækja um leyfi til að stofna rafveitu.

Uppsveitarorka mun afla og dreifa orku til garðyrkjubænda og annars atvinnurekstrar á hagkvæmari hátt en nú er.

Markmiðið með stofnun félagsins er að geta boðið orkusæknum fyrirtækjum á svæðinu mun hagkvæmari kost við orkuöflun og dreifingu hennar og tryggja þannig áframhaldandi uppbyggingu garðyrkju og annarrar atvinnustarfsemi á svæðinu.

„Sífelldar hækkanir undanfarinna ára á raforku og sérstaklega á dreifingu hennar hafa gert það að verkum að hagkvæmasti kosturinn er að byggja upp og reka eigið dreifikerfi. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að ná til um 75% garðyrkjubænda í ylrækt með lýsingu,“ segir í fréttatilkynningu.

Verkefnið er sprottið af þeirri þörf garðyrkjubænda að finna sanngjarnari og hagkvæmari lausnir við öflun orku og dreifingu hennar. Sautján garðyrkjubændur í Laugarási, Reykholti og á Flúðum ásamt sveitarfélögunum hafa stofnað félagið.

Árið 2005 voru samþykkt ný raforkulög. Síðan þá hefur vísitala neysluverðs hækkað um 68%, en dreifikostnaður raforku í þéttbýli vaxið um 87% og dreifikostnaður raforku í dreifbýli um 123%. Ylrækt byggir á mjög mikilli orkunotkun enda raflýsing forsenda ræktunarinnar.

„Garðyrkjan þolir ekki þvílíkar hækkanir á raforkudreifingu. Reynt hefur verið að semja um orkutaxta t.d. stórnotendataxta eða grænorkutaxta fyrir ylræktina til að halda henni samkeppnishæfri en það hefur ekki skilað neinum árangri,“ segir í fréttatilkynningunni.

Umsókn til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um leyfi til öflunar og dreifingar raforku mun því verða send á næstu dögum.

Fyrri greinÞetta er það sem ég stend fyrir
Næsta greinHvergerðingar í miklum ham