Í gærkvöldi fékk hópur Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem sinnir hálendisvakt í Landmannalaugum, boð frá Neyðarlínunni um að hópur fjögurra göngumanna sem voru á Laugaveginum þyrfti aðstoð. Einn úr hópnum hafði örmagnast og treysti sér ekki til að halda áfram för.
Um klukkan 22:30 kom björgunarfólk að hópnum þar sem hann hafðist við, í Jökultungum rétt ofan skálans við Álftavatn. Aðstæður þar voru afar erfiðar, veður slæmt, mikil rigning og sökum bleytu var afar hált.
Búið var um þann sem örmagnaðist, en hinir fengu fylgd niður í bíla björgunarfólks. Á þessari stundu var ljóst að boða þyrfti út liðsauka svo öruggt væri að bera mannin niður og voru björgunarsveitir á Suðurlandi kallaðar út. Þær komu á vettvang laust fyrir klukkan 2 í nótt og þá var hafist handa við að koma manninum niður.
Hinn hluti hópsins var þá kominn í skjól í skálanum við Álftavatn, þar sem hann naut heitra drykkja og næringar hjá skálavörðum.
Klukkan rúmlega hálf þrjú í nótt var komið með þann sem örmagnaðist í skjól í Álftavatnsskála og í framhaldinu var hópurinn fluttur til byggða með björgunarfólki og fengu þau gistingu á Hellu. Áður en lagt var af stað hafði hjúkrunarfræðingur metið ástand þess sem örmagnaðist ágætt.
Hluti búnaðar hópsins var skilinn eftir í nótt og mun hálendisvaktarhópurinn nálgast hann í dag.