„Ég hef fylgst með fuglalífi í Veiðivötnum síðustu áratugi og fer jafnan inneftir í fyrstu talningaferð um 10. júní. Í ferðinni núna sá ég nafna minn í fyrsta skipti í Veiðivötnum og var það að sjálfsögðu mikil og góð upplifun.
Hafernir urpu í Veiðivötnum fyrr á öldum en síðast var vart við varp þar í lok 19. aldar,“ segir Örn Óskarsson, líffræðingur á Selfossi aðspurður um hvernig það atvikaðist að hann hefði séð til hafarnar þar innfrá.
Örn segir að haförn hafi sést líka í Veiðivötnum í fyrrahaust. Hann viti þó ekki til þess að sést hafi til hans síðar.
„Greinilega eru um að ræða fugl sem þvælist um hálendið í leit að fæðu. Af öðrum fuglum á svæðinu er himbrimi áberandi, einnig er mikið af kríum og heiðlóum á svæðinu,“ segir Örn ennfremur.