Ef um gos er að ræða er það örugglega lítið þar sem óróinn mælist ekki á jarðskjálftastöðvum á Norðurlandi, líkt og þær gerðu þegar gaus í Fimmvörðuhálsi í fyrra.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í morgun.
Hlaupið sem hófst í Múlakvísl á Mýrdalssandi í gærkvöld hefur rofið Þjóðveg 1. Vatn er tekið að flæða yfir brúna en hlaupið hefur stigmagnast eftir því sem liðið hefur á nóttina. Nú undir morgun kom skyndilegur hvellur, að sögn Írisar Marelsdóttur hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Ljóst er að brúin yfir Múlakvísl er eitthvað löskuð og skörð komin í veginn sitt hvorum megin við hana.
Þar með hefur Veðurstofan misst samband við neðri mælinn í Múlakvísl og getur ekki sagt lengur til um leiðni í vatninu. Samkvæmt mæli upp við jökul er hins vegar ljóst að þessi toppur sem varð um fimmleytið er í rénun.
Búið er að virkja samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð sem mun ákveða næstu skref. Þyrla er um það bil að fara í loftið til að meta aðstæður á svæðinu.
Almannavarnadeild vill koma þeim ábendingum til fólks í nágrenni Múlakvíslar að það forði sér ef það verði vart við mikla brennisteinslykt, og varist að dvelja í lágum þar sem brennisteinsvetni gæti safnast fyrir. Þá skal það ítrekað að Þjóðvegur 1 er lokaður vestan frá Höfðabrekku austur að Skálm.