Gosóróinn var nokkuð stöðugur undir Eyjafjallajökli í dag og hefur verið svipaður síðustu sólarhringa.
Lítið sást til gosstöðvanna í dag en samkvæmt veðurratsjá náði gosmökkurinn að jafnaði í 7 km hæð.
Mikið öskufall var á Hvolsvelli og í nágrenni en sömuleiðis féll aska í Árnessýslu. Veðurstofu bárust m.a. tilkynningar um öskufall frá Vestmannaeyjum, Bakkaflugvelli og úthverfum Reykjavíkur.
Frá Nýjabæ, austan við ósa Markarfljóts, var tilkynnt um grófkorna ösku með smá fínu með en þetta er í fyrsta skipti sem aska fellur þar.
Á sjötta tug eldinga hafa mælst á eldingamælum bresku veðurstofunnar frá því í gærkvöldi. Það hafa mælst allt að 10 eldingar á klukkutíma.