Vatnajökulsþjóðgarður hefur ráðið Orra Pál Jóhannsson sem sérfræðing og aðstoðarmann þjóðgarðsvarðar á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Orri Páll var valinn úr hópi 26 umsækjenda.
Orri Páll hefur lokið búfræðiprófi frá Hvanneyri, lagt stund á nám í ferðamálafræði við Háskóla Íslands og umhverfisfræði við Nova Scotia Agricultural College. Hann lauk BSc-gráðu í vistfræði og umhverfisvernd frá Universitetet for miljø og biovitenskap (UMB) í Ási, Noregi, og er að ljúka MA-gráðu í umhverfissiðfræði við Háskóla Íslands.
Hann á einnig fjölbreytilegan starfsferil að baki, hefur starfað sem ritstjóri búnaðarritsins Freys, kennari hjá Hólabrekkuskóla, verkefnisstjóri hjá Vinnuskóla Reykjavíkur og um fimm ára skeið sem verkefnisstjóri Grænfánaverkefnisins hjá Landvernd. Þá hefur Orri Páll starfað sem leiðsögumaður og sem landvörður til margra ára í þjóðgarðinum á Þingvöllum og í Vatnajökulsþjóðgarði.
Haustið 2012 sinnti Orri Páll afleysingu aðstorðarmanns þjóðgarðsvarðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og vann þar einnig sem lausráðinn sérfræðingur fyrri hluta árs 2013.
Orri Páll á ættir að rekja í Álftaver og Meðalland. Hann varði nær öllum sumrum í barnæsku og fram á unglingsár á Bakkakoti í Meðallandi og þekkir því vel til staðhátta og mannlífs í Skaftárhreppi.
Orri Páll hefur störf í byrjun marsmánaðar 2015.