Örtröð í hraðpróf á Selfossi

Löng röð í sýnatöku á Selfossi síðastliðinn laugardag. Ljósmynd/Magnús Ninni Reykdalsson

Löng bílaröð var í hraðpróf vegna COVID-19 á Selfossi í morgun. Venjulega er ekki prófað um helgar á Selfossi en vegna smita í Fjölbrautaskóla Suðurlands og Sunnulækjarskóla á Selfossi síðustu daga var aukaopnun í morgun.

Sýnatakan fer sem fyrr fram í kjallara verslunarmiðstöðvarinnar Kjarnans og stýrði lögreglan röðinni sem taldi nokkur hundruð bíla, en allt gekk vel fyrir sig. Röðin, sem var fjórföld á kafla, var tæplega 800 metra löng og náði frá Kjarnanum, eftir Selfossvegi, inn á Þóristún og út á Eyraveg.

Ný smit í Sunnulækjarskóla
Í gærkvöldi voru þrjú ný smit staðfest hjá nemendum í þremur árgöngum í Sunnulækjarskóla og eru einhverjir skólafélagar þeirra komnir í sóttkví en stærstur hluti nemenda í þessum árgöngum fer í smitgát. Þeir þurfa að fara í hraðpróf á fyrsta og fjórða degi en mega halda áfram að mæta í skólann.

Í röðinni á Selfossi í morgun voru því að mestu leiti nemendur í Sunnulækjarskóla á leið í fyrra hraðpróf og nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurlands á leið í seinna hraðpróf.

Fyrri greinSelfyssingar lögðu toppliðið – Hamar tapaði
Næsta grein600 sýni tekin á Selfossi í dag