Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur þungar áhyggjur af ástandi sjúkrabifreiða, sem heilt yfir landið fer nú versnandi.
Í ályktun LSS sem send var heilbrigðisráðherra í gær segir að ástandið sé alvarlegt og með öllu óásættanlegt að ekki sé enn búið að tryggja fjármögnun til endurnýjunar.
„Sjúkrabifreiðar eru mikilvæg flutningstæki og er þeim ætlað að vera ekið forgangsakstri þar sem líf og heilsa liggja við. Forgangsakstur er hættulegur og afar mikilvægt er að sjúkrabifreiðar séu í góðu ástandi til þess að auka ekki hættuna á alvarlegum slysum í umferðinni. Forgangsakstur eykur álag á ökutækin og eykur þar með á slit þeirra. Regluleg endurnýjun er lykilatriði,“ segir í ályktuninni þar sem bætt er við að öryggi sjúkraflutningamanna og skjólstæðinga þeirra sé nú ógnað.
„Endurnýjun hefur ekki átt sér stað síðan árið 2015 og ástand flotans er orðið mjög slæmt. Samkvæmt útgefnum viðmiðum er nú þegar orðin þörf á endurnýjun rúmlega helmings allra sjúkrabifreiða í landinu. Útboði nýrra sjúkrabifreiða hefur nú verið frestað samtals 11 mánuði og ekki er enn búið að tryggja fjármögnun þess,“ segir ennfremur í ályktuninni.
Að sögn LSS stefnir í algjört óefni enda tekur um 10 mánuði frá því gengið er frá samningum á grundvelli útboðs þar til fyrstu bifreiðar eru afgreiddar.
„Sjúkraflutningamenn þurfa ávallt að haga akstri eftir aðstæðum og gæta að öryggi. Ástand ökutækja er nú víða orðið svo að ekki er sjálfgefið að mæta megi með viðunandi öryggi þeim kröfum sem gerðar eru um viðbragðstíma. Tíðni bilana eykst og þar með hættan á því að sjúkrabifreið komist ekki á vettvang til þess að sinna bráðveikum og slösuðum,“ segir að lokum í bókun LSS sem skorar á ábyrgðaraðila að tryggja án tafar lausn á þessu máli svo ekki verði frekari tafir á endurnýjun sjúkrabifreiða.