Anna Greta Ólafsdóttir, fyrrverandi skólastjóri Flóaskóla, hefur óskað eftir því við sveitarstjórn Flóahrepps að öllum trúnaði verði aflétt af starfslokasamningi hennar.
Önnu Gretu var fyrirvaralaust sagt upp störfum í Flóaskóla í apríl síðastliðnum eftir tæplega þriggja ára starf.
Óskar hún eftir því að íbúar og annar almenningur fái aðgang að samningnum í heild og þá sérstaklega upplýsingum um upphæð samningsins.
Erindi Önnu Gretu var lagt fyrir síðasta sveitarstjórnarfund í Flóahreppi.
Í bókun sveitarstjórnar segir að hún muni ekki setja sig gegn því að trúnaði verði aflétt, liggi fyrir álit lögfræðings Önnu Gretu og lögfræðings sveitarfélagsins á því með hvaða hætti þessar upplýsingar verði afhentar.