„Þetta eru um tuttugu ár í starfi og mér hefur liðið mjög vel hér. Góðir vinnufélagar sem leggja mikið á sig til að hafa öfluga og góða þjónustu. Ég taldi að þessi tími væri eins góður og hver annar til að gera þessa breytingu en ég þarf að vera í Reykjavík í og utan vinnutíma.“
Þetta segir Óskar Sesar Reykdalsson, læknir, sem lét af störfum við Heilbrigðisstofnun Suðurlands um síðustu mánaðamót.
Óskar er nýráðinn framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landsspítalans Háskólasjúkrahúss (LSH) og er yfirmaður rannsóknarstofa og myndgreiningar.
„Það er spennandi og ögrandi starf, þar er t.d. núna verið að koma á fót heilaþræðingum á LSH og mikil vinna fyrir í að undirbúa PET skanna en það er að færa heilbrigðisþjónustuna á Íslandi í betri gæðaflokk. Ég mun þó ekki alveg sleppa sjúklingum og það er hluti af starfi margra framkvæmdastjóra að sinna sjúklingum og ég mun gera það á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Óskar.