Félag sjúkraflutningamanna á Suðurlandi afhenti í dag peningagjafir til tveggja fjölskyldna en gjafirnar eru ágóði af árlegri dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.
Þetta er tíunda árið í röð sem sjúkraflutningamennirnir afhenda fjölskyldum langveikra barna styrki. Báðar fjölskyldurnar fengu 400 þúsund króna peningagjöf.
Óskar Louis Killa er eins og hálfs árs Hvergerðingur, sonur Öddu Maríu Óttarsdóttir og Liam Killa. Vikugamall var hann greindur með Möbius syndrome sem er mjög sjaldgæft heilkenni. Það sem er einkennandi fyrir Möbius er skemmd á ákveðnum heilataugum þannig að vöðvaspenna er mjög lítil í andlits- og augnvöðvum. Óskar getur ekki lyft augabrúnum, ekki hreyft augun til hliðar eða blikkað þeim og grætur ekki tárum. Hann fær augndropa til þess að viðhalda raka í augunum.
Óskar er einnig með litla tungu og á erfitt með að borða og kyngja og fingur hans eru mjög óvenjulegir, það vantar fingur, sumir eru samvaxnir og hendurnar eru mjög nettar. Augun vilja renna til hjá fólki með Möbius vegna slappleika augnvöðvanna og er Óskar búinn að fara í eina aðgerð til þess að stilla augun og er reiknað með að hann þurfi fljótlega að fara í aðra. Einnig þarf hann að fara í nokkrar aðgerðir þar sem samvaxnir fingur verða aðskildir.
Þó Öddu og Liam hafi brugðið við að uppgötva að litli prinsinn hafi ekki alveg sömu tækifærin og heilbrigð börn á Íslandi hafa, þá eru þau sannfærð um að hann spjari sig. Þau hafa hvarvetna fundið mikinn hlýhug og stuðning og er það trú þeirra að það hjálpi Óskari að alast upp í litlu samfélagi, þar sem allir vita að hann er kátur og hamingjusamur strákur sem brosir með hjartanu.
Filip Wladyslaw Banczak verður sex ára í janúar. Foreldrar hans eru Lucyna Karpa og Krzysztof Banczak. Þau hafa búið á Íslandi frá árinu 2008 en Filip býr hjá móður sinni á Flúðum.
Tveggja sólahringa gamall fékk hann heilablæðingu og var fluttur með hraði í aðgerð til Reykjavíkur. Aðgerðin gekk vel en læknarnir voru ekki allt of vongóðir með framhaldið og voru fyrstu dagar eftir aðgerðina mjög erfiðir þar sem beðið var milli vonar og ótta um hvort Filip mundi lifa af.
En kraftaverkið gerðist, Filip vaknaði og er í dag öflugur og duglegur strákur. Filip var tvær vikur á vökudeild en fékk þá að fara heim til sín og hefur síðan verið undir eftirliti lækna og sérfræðinga sem eru mjög ánægðir með gang mála. Heilablæðingin olli því að Filip hefur greinst með CP tvenndarlömun og væga þroskahömlun. Filip notar göngugrind til að komast um gangandi og er mjög öflugur að nota hana.
„Undanfarin ár höfum við gefið lægri peningaupphæð ásamt ýmsum gjöfum frá fyrirtækjum í bænum. Við ákváðum að breyta til í ár og hækka peningagjöfina verulega og vonum að hún komi að góðum notum. Dagatalssalan hefur alltaf gengið vel og það var engin undantekning á því í ár, enda málsstaðurinn góður. Þetta er í tíunda skiptið sem við afhendum styrki sem þessa og þetta er alltaf jafn gefandi og skemmtilegt fyrir okkur svona rétt fyrir jólin,“ sagði Ívar Örn Sigurðsson, formaður Félags sjúkraflutningamanna í samtali við sunnlenska.is.