Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli var kölluð út í nótt vegna rúðu sem brotnað hafði á bæ undir Eyjafjöllum.
Svo hvasst var að fólk á bænum treysti sér ekki til að fara út til að negla fyrir gluggann.
Lögreglan á Hvolsvelli ítrekar að það sé ekkert ferðaveður undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum. Mikið rok sé á svæðinu og hvassar vindhviður. Þá sé sandfok mikið í kringum Svaðbælisá og því hætta á skemmdum á ökutækjum sem fari þar um.
Þá mælist lögreglan til að fólk sé ekki á ferðinni á þessum slóðum að þarflausu. Það er jafnframt hvatt til þess að fylgjast með vef vegagerðarinnar og veðurfréttum í útvarpi. Þá segir að veður eigi að lægja seinni partinn í dag eða með kvöldinu.