Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum manni að öskudagurinn er í dag. Siðir í kringum öskudaginn hafa breyst mikið síðan hann barst hingað til lands í kringum 1870 frá dönskum kaupmönnum. Lengi vel var aðeins haldið upp á daginn á Akureyri en nú er hann haldinn hátíðlegur um allt land.
Í stað þess að hengja öskupoka í laumi á næsta mann og slá köttinn úr tunnunni, þramma börn nú um götur bæjarins og fara úr fyrirtæki í fyrirtæki þar sem þau fá sælgæti eða annað gotterí í skiptum fyrir söng.
Upp úr hádegi í dag byrjuðu grímuklædd börn á Selfossi að streyma í fyrirtæki og verslanir þar sem vel var tekið á móti þeim með nammiskálina. Starfsfólk sumra fyrirtækja tók einnig þátt í öskudagsgleðinni með börnunum og klæddi sig í búning – við mikla hrifningu barnanna. Búningar barnanna voru bæði heimagerðir og keyptir eða bland af hvoru tveggja og var augljóst að mörg börnin höfðu lagt mikla vinnu og hugsun í búninginn sinn.
Vinsælasta lagið var án efa Gulur, rauður, grænn og blár en þar fast á eftir kom hið sígilda öskudagslag Alúetta. Einhverjir voru líka með frumsamin lög og aðrir sögðu brandara.
Samkvæmt þjóðtrúnni á öskudagurinn sér átján bræður. Megum við því búast við að það hætti að snjóa um 12. mars. Það er því skynsamlegt að parkera ekki alveg strax skóflunni og bomsunum.