Gosvirkni í Eyjafjallajökli var mjög svipuð í dag og í gær. Óróinn hefur einnig verið nokkuð svipaður síðastliðinn sólarhring og bendir hann ekki til þess að gosinu sé að ljúka.
Í dag var tilkynnt um öskufjúk á Rangárvöllum og í Hveragerði. Gert er ráð fyrir öskumistri til norðvesturs frá eldstöðinni næstu daga.
Í tilkynningu frá sóttvarnalækni segir að þegar öskumistur er til staðar þá er einstaklingum með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ráðlagt að halda sig innandyra en notkun gríma er óþörf. Sóttvarnalæknir mun gefa út staðbundnar tilkynningar ef notkun gríma verður talin nauðsynleg.