Óveður og sandrok er undir Eyjafjöllum og á Mýrdalssandi. Skólahald í Víkurskóla og Barnaskóla Eyrarbakka og Stokkseyrar fellur niður í dag vegna veðurs.
Veðurstofan varar við mjög takmörkuðu skyggni í éljagangi eða öskufoki á Suðurlandi í dag og enn á eftir að bæta í vind. Hvassast verður við suðurströndina og búast má við vindhviðum upp á 40-50 m/sek.
Sandrok er undir Eyjafjöllum og er ekkert ferðaveður að sögn Vegagerðarinnar en óveður og hætta á sandroki á Mýrdalssandi.
Vegna óveðurs fellur morgunferð Herjólfs niður í dag til Þorlákshafnar og búast má við að sama eigi við um ferðina síðdegis. Ákvörðun um seinni ferðina verður tekin um hádegi, að því er segir í tilkynningu.