„Maður þakkar alltaf fyrir hvað allir þessi hópur vann þetta ofsalega vel. Þetta var ótrúleg samvinna og tilfinningin að bjarga mannslífi er dásamleg,“ segir Sigríður Sæland, Sunnlendingur ársins 2017.
Lesendur sunnlenska.is kusu Sigríði Sunnlending ársins, en hún vann yfirburða sigur í kosningunni eftir að hafa bjargað lífi Ásdísar Styrmisdóttur í Sundhöll Selfoss þann 11. október síðastliðinn.
Sigríður, sem er 73 ára, hefur kennt skyndihjálp stöðugt frá árinu 1983 en þetta er í fyrsta skipti sem hún hefur þurft að beita henni sjálf á þennan hátt.
Hvatningin gaf okkur aukinn kraft
„Við vorum að fara ofan í laugina í þrekvatnsleikfimi þegar Ásdís fellur í vatnið. Ég er þarna næst henni og ég hélt fyrst að hún hefði bara misst jafnvægið. En um leið og ég sá hana í vatninu þá áttaði ég mig á því að þetta var ekki eðlilegt,” rifjar Sigríður upp í samtali við sunnlenska.is.
Ásdís Ingvarsdóttir, sem stýrði vatnsleikfimitímanum, kallaði strax á hópinn að koma Ásdísi upp á sundlaugarbakkann.
„Þá komu margar úr hópnum þarna að og við lyftum henni upp á bakkann. Ég gætti að hálsinum og höfðinu og við keyrum hana upp. Þetta var ótrúleg samvinna hjá okkur og mér fannst dásamlegast að hafa stjórnanda uppi á bakkanum. Ásdís Ingvarsdóttir hvatti okkur og það er svo ótrúlegt að þó að maður viti hvað maður eigi að gera þá skiptir hvatningin máli og gefur okkur aukinn kraft,“ bætir Sigríður við.
Létt að blása í hana
Endurlífgunin hófst svo um leið og Ásdís var komin upp á bakkann, en læknar hennar í Reykjavík segja að viðbrögð nærstaddra á fyrstu mínútunni hafi bjargað lífi hennar, þar sem tengistopp varð milli heilans og hjartans. Svokölluð hjartablokk.
„Ásdís fer að kalla á hana og ég að athuga öndunina. Ég sá að hún var súrefnislaus þannig að ég byrja að blása. Og það var svo létt að blása í hana miðað við dúkkurnar. Svo kemur hún inn og við sjáum að hún veltir augunum upp á okkur, og hún hefur sagt það að hún man eftir andlitunum á mér og Ásdísi. En svo fjarar hún aftur út og þá byrjum við aftur,“ segir Sigríður og bætir við að hún muni ekki eftir björguninni í smáatriðum.
„Það er svo hræðilegt fyrir mig, ég get ekki munað hvort ég beitti hjartahnoði á hana. En það segja það allir að ég hafi hnoðað hana líka. Ég er bara að hugsa um hana og ég heyri ekkert. Ég man að ég heyrði í neyðarbjöllunni en það er svo skrítið að maður missir heyrn gagnvart umhverfinu. Það var búið að segja mér áður að þetta gerðist, en það er svo ótrúlegt að upplifa þetta, að fara í þennan fasa þar sem maður er bara að einbeita sér algjörlega að þeim veika eða slasaða.“
Hópur sem vann vel saman
Hjúkrunarkona og lögreglumaður sem voru stödd í lauginni komu fljótt á vettvang ásamt starfsfólki Sundhallarinnar og síðan sjúkraflutningamenn frá sem fluttu Ásdísi á Landspítalann.
„Við erum byrjuð á björguninni þegar starfsfólk Sundhallarinnar kemur að. Þau fara ekkert að taka fram fyrir hendurnar á mér og það eru alveg eðlileg viðbrögð þeirra þar sem ég hef verið að kenna þeim skyndihjálp. Ásdís er svo flutt með sjúkrabíl en það voru lögreglumenn sem biðu hjá okkur og við fengum að fylgjast með því hvar hún var stödd. Það kom sálfræðingur og talaði við hópinn, og það var mikilvægt. Og áður en kvöldið var liðið fengum við að vita að það yrði í lagi með hana. Strax þarna varð þetta alveg dásamleg tilfinning. En ég fór í það neikvæða og er það kannski enn, að þetta væri allt mér að þakka. Því við vorum þarna hópur og unnum vel saman,“ segir Sigríður.
Tengdar saman með sterku reipi
Sigíður segir að það hafi tekið nokkurn tíma að greiða úr tilfinningunum eftir þetta örlagaríka kvöld.
„Þetta var erfitt fyrst, svo reynir maður að fara frá þessu. Við ræddum þetta saman í gönguhópnum okkar, því Ásdís er líka göngufélagi okkar. Það er hjálp í því að tala saman. Svo fer maður að geta sofið, en þetta var svolítið erfitt þegar ég hitti hana í fyrsta skipti aftur í viðtali fyrir Morgunblaðið og þurfti að rifja upp hvað hefði gerst. Það var óþægilegt en það létti samt á hjá okkur báðum, það er ekki hægt að segja annað.
Ásdís kom svo til okkar í byrjun desember út í sundlaug og sat og horfði á tímann hjá okkur. Og það var alveg dásamlegt að hún hefði þrek og þor til þess. Maður þakkar alltaf fyrir hvað allur þessi hópur vann þetta ofsalega vel. Þegar við vorum að koma í tímann strax á eftir þá fann maður að við urðum allar nátengdari. Þó að við þekktumst fyrir þá er þarna núna eitthvað geysilega sterkt reipi sem tengir okkur saman.“
Kviknar flott á okkur ef við kunnum handtökin
Sigríður var svo sannarlega rétt kona á réttum stað þegar áfallið dundi yfir. Hún hefur kennt skyndihjálp í 34 ár og komið að minniháttar slysum en aldrei þurft að blása í fólk áður. Hún segir að það hafi marg sannað sig hvað skyndihjálparkunnátta geti verið gríðarlega mikilvæg.
„Óvant fólk hefur talað um það hvernig það hefur brugðist alveg 100% rétt við í aðkomu að slysi. Ég held að við kveikjum svo flott á því í tölvunni okkar, hvernig við eigum að vinna, ef við kunnum handtökin og vitum hvað við eigum að gera. Við viljum ekki hugsa um að lenda í svona aðstæðum og enginn vill upplifa þetta. En ég hef hvatt mína nemendur til þess að hugsa öðru hverju um þetta og kíkja öðru hverju í það nauðsynlegasta í skyndihjálparbókinni. Ef fólk gerir það þá vil ég meina að það kvikni rosalega flott á okkur ef við lendum í þessum aðstæðum.“