„Ótrúlega mikilvægt að elta draumana sína“

Listakonan Rakel Rögn hefur heldur betur slegið í gegn. Ljósmynd/Úr einkasafni

Listakonan Rakel Rögnvaldsdóttir frá Selfossi hefur náð að hasla sér víða völl þrátt fyrir ungan aldur.

Um þessar mundir býr Rakel á Ítalíu þar sem hún stundar nám í grafískri hönnun og listrænni stjórnun. Sunnlenska.is hafði samband við þessa hæfileikaríku listakonu og spjallaði við hana um listina og lífið.

„Það er erfitt fyrir mig að lýsa verkunum mínum þar sem þau eru svolítið allskonar. Ég elska að nota mikla liti og láta verkið öskra svolítið á mann í rými. Ég teikna langmest en hef líka mjög gaman af því að mála eða teikna í tölvu, stafræn teikning, en verkin mín byrja undantekningarlaust á skissum á blaði og svo þróast þau út frá því,“ segir Rakel.

Rakel, sem hannar undir listamannsnafninu Rakel Rögn, segir að hún sæki innblásturinn í ótrúlega margt. „Hann kemur svolítið í bylgjum, suma daga er ég með endalaust af hugmyndum og aðra gjörsamlega engar. Ég er mikill tónlistar- og kvikmyndaunnandi og fer oft í svolítið „innblásturs brjálæði“ ef ég horfi á mynd eða hlusta á tónlist sem hreyfir við mér.“

„Ég elska Jean Michel Basquiat, hann er allavega sá listamaður sem stendur mest upp úr hjá mér. Ég elska líka að fylgjast með listamönnum á netinu og fá innblástur frá þeim. Einn sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér í smá tíma er Terry Urban.“

Að sögn Rakelar eru verk hennar allskonar enda sækir hún innblástur í ótrúlega margt. Ljósmynd/Úr einkasafni

Komst inn í tvo listaháskóla
Sem fyrr segir býr Rakel á Ítalíu þar sem hún stundar sitt listnám í listaháskólanum NABA í Mílanó.

„Árin 2022-2023 fór ég í hönnunar- og nýsköpunarnám í Tækniskólanum í Reykjavík sem er árs nám sem hjálpar fólki að undirbúa sig og sækja um í listaháskólum. Við bekkurinn fengum styrk til þess að fara á hönnunarviku í Mílanó árið 2023 og þá fórum við einnig í heimsóknir í nokkra skóla, þar á meðal NABA. Ég gjörsamlega heillaðist af skólanum og svæðinu og fann strax að þarna ætti ég heima.“

„Næst á dagskrá var bara að klára portfolio og sækja um. Ég endaði á að sækja um bæði í NABA og í Listaháskóla Íslands og komst svo inn í báða skólana. Það var ótrúlega erfitt að velja á milli skóla en vá hvað ég er glöð að hafa drifið mig út! Þetta er algjörlega besta ákvörðun sem ég hef tekið og ég finn að námið á ótrúlega vel við mig.“

„Þetta er BA nám og er þrjú ár. Ég er akkúrat hálfnuð núna og mun útskrifast árið 2026. Mér finnst ég alltaf vera nýbyrjuð svo það er ótrúlega skrítið að hugsa hvað það er stutt eftir.“

Fékk skammir fyrir að teikna í skólabækurnar
Rakel segir að hún hafi alltaf verið listræn eða alveg síðan hún var pínulítil.

„Ég elskaði að teikna, mála, syngja og skrifa sögur og það hefur í rauninni bara stigmagnast. Ég man að ég fékk einhvern tímann skammir í grunnskóla fyrir að skissa og teikna of mikið í vinnubækurnar mínar.“

Rakel hefur málað og teiknað síðan hún man eftir sér. Sem betur fer tók hún ávítur kennaranna í grunnskóla ekki nærri sér og hélt áfram að teikna og mála – en á eitthvað annað en kennslubækur. Ljósmynd/Úr einkasafni
Verk eftir Rakel. Ljósmynd/Úr einkasafni

Málar á galla fyrir 66°Norður
Óhætt er að segja að frægðarsól Rakelar hafi risið hratt þegar hún málaði myndir á jakka fyrir fyrirtækið 66°Norður sumarið 2021.

„Ég fékk þetta ótrúlega skemmtilega verkefni að vinna fyrir 66 fyrir Þjóðhátíð í nokkur skipti. Fyrir Kótelettuna 2021 hafði ég málað á jakka sem ég var svo í og var dugleg að sýna frá ferlinu á netinu. 66 höfðu í kjölfarið samband við mig og spurðu hvort ég hefði áhuga á að gera svipað fyrir þau fyrir Þjóðhátíð. Ég sagði auðvitað já og út frá því kom þessi skemmtilega hugmynd að vera með viðburð þar sem fólk gæti komið og látið teikna á fötin sín fyrir helgina.“

Rakel að störfum. Ljósmynd/Úr einkasafni
Rakel hefur málað ófáa 66°N galla. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Síðan þá hefur júlí og ágúst alltaf verið busy mánuður hjá mér. Ég hef bæði verið að teikna á fötin á viðburðinum hjá þeim og svo hefur fólk verið að koma með fötin sín til mín og ég teikna á þau heima. Það er ekkert smá gaman að fara svo til Eyja og sjá fólk út um allt í göllum sem ég hef skreytt.“

„Það er ótrúlega gaman að vinna fyrir 66, svo ég er alltaf opin fyrir því að taka fleiri svona verkefni að mér!“

Langar raðir mynduðust hjá Rakel. Allir vildu láta láta hana mála mynd á sinn galla. Ljósmynd/Úr einkasafni
Regnstakkar frá 66°N hafa aldrei verið jafn töff. Ljósmynd/Úr einkasafni

Annar hver maður á Selfossi í bol eftir Rakel
Myndskreyttir 66°Norður gallar er ekki eini fatnaðurinn sem Rakel hefur sett fingur sinn á. Í fyrra hannaði hún boli fyrir líkamsræktarstöðina BOX800 á Selfossi sem urðu gífurlega vinsælir og seldust fljótt upp.

„Ég fékk það ótrúlega skemmtilega verkefni að hanna boli fyrir BOX800 í fyrra. Sú hugmynd kom upp þar sem Aníta systir mín greindist með krabbamein og BOX800 voru svo frábær að vilja að halda viðburð og selja boli til styrktar henni. Mér datt ekki í hug að salan myndi ganga svona vel en mér finnst annar hver maður á Selfossi ganga um í svona bol, sem er svo skemmtilegt.“

„Mér finnst alltaf lang skemmtilegast að vinna með og styðja heimabyggð og svo var þetta auðvitað extra sérstakt fyrir mig þar sem þetta var til heiðurs systur minnar. BOX800 er ekkert smá flott fyrirtæki og ég sé svo sannarlega fram á að vinna eitthvað meira með þeim í framtíðinni.“

Bolurinn sem Rakel hannað fyrir BOX800. Ljósmynd/Úr einkasafni
Bolurinn sló algjörlega í gegn og seldist fljótt upp. F.v. Valgerður Heiðarsdóttir, Sigrún Eydís Garðarsdóttir (mamma Rakelar) og Heiðrún Jóhanna Heiðarsdóttir. Ljósmynd/Úr einkasafni

Búin að finna sína réttu hillu
Það eru spennandi tímar framundan hjá Rakel. „Ég er ótrúlega spennt fyrir framtíðinni sem listamaður og ég á marga drauma. Ég mun allavega halda áfram í listinni og grafíkinni og mögulega færa mig aðeins meira yfir í listræna stjórnun.“

„Eins og er, er ég með nokkur spennandi verkefni í vinnslu og svo verður bara gaman að sjá hvaða tækifæri bjóðast eftir útskrift! Ég finn allavega að ég er klárlega á réttum stað og er búin að finna mína hillu.“

„Þetta er kannski svolítið klisjukennt en það er bara svo ótrúlega mikilvægt að elta draumana sína, vera óhræddur við að vera maður sjálfur og að deila því sem maður er að skapa.“

„Ég las grein sem mér fannst svo skemmtileg um daginn, þar er verið að tala um þættina Severance sem eru algjört meistaraverk, leikstýrt af Ben Stiller. Í þáttunum er ótrúlega flott animated upphafsatriði sem er í öllum þáttunum. Ég komst að því í þessari grein að Ben Stiller var bara að skrolla á Instagram þegar hann sá listamanninn Oliver Latta sem er flinkur í að búa til svona video og réði hann til að vinna fyrir Severance. Latta hlaut svo Emmy verðlaun fyrir þetta upphafsatriði. Þetta hvetur mig áfram að deila því sem ég er að gera, því maður veit aldrei hvaða tækifæri geta boðist út frá því,“ segir Rakel að lokum.

Hægt er að fylgjast með Rakel og verkum hennar á Instagram síðunni hennar.

Rakel hefur fundið sína réttu hillu í lífinu. Ljósmynd/Úr einkasafni
Rakel hvetur fólk til að elta draumana sína og vera óhrætt við að vera það sjálft. Ljósmynd/Úr einkasafni
Fyrri greinPulsupasta í rjómaostasósu er listgrein
Næsta greinVíðir hirti toppsætið af Ægi