Hlauparar sem hafa skráð sig í hlaup í Vík í Mýrdal 8. júlí næstkomandi í gegnum síðuna Alpine High Events hafa kvartað yfir því að hafa ekki náð í forsvarsmenn hlaupsins eftir að hafa greitt skráningargjald.
Menn óttast að um svikamyllu sé að ræða.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Á síðunni er hægt að velja um að skrá sig í hlaup í Vík í þremur vegalengdum, 10 km, maraþon eða 100 km últrahlaup. Þau kosta á bilinu 60 dollara til 215 dollara eða frá tæpum sjö þúsund krónum og upp 24 þúsund krónur.
Í ágúst í fyrra hafði maður að nafni Michael Pendleton samband við Ásgeir Magnússon, sveitarstjóra Mýrdalshrepps. Hann sagði honum að forsvarsmenn hlaupsins Alphine High Events, hefðu beðið sig um að hafa samband við sveitarsjórann og greina honum frá fyrirhuguðu hlaupi 8. júlí í Vík. Hann kynnti sig ekki beint sem einn af þeim sem stæðu fyrir hlaupinu.
Pendleton sagði sveitarstjóranum að hlaupið færi fram á þjóðveginum en Ásgeir segist hafa bent honum á að sækja þyrfti um leyfi fyrir slík.
„Ég hafði á áhyggjur af því en á þessum tíma fara um þjóðveginn 2.800 til 3.500 manns og eflaust fleiri í sumar. Ég bað um fleiri upplýsingar. Það síðasta sem hann sendi mér var óútfyllt umsóknareyðublað um viðburði sem hann sagðist ætla að fylla út síðar,“ segir Ásgeir í samtali við Morgunblaðið.